Ný áætlun til Íran 7.sept-22.sept 2012

Það eru ekki ýkjur að segja að Íran hafi slegið í gegn hjá íslensku hópunum okkar og frá því fyrsta ferðin var í lok febr 2006 hafa VIMA félagar fara þangað í
tíu ferðir. Nokkrir hafa farið tvisvar og margir hafa beðið um nýja áætlun.

Í þeirri ferð sem fyrirhuguð er 7.-22.sept 2012 verður byrjað í Tabriz í norðvesturhlutanum, haldið síðan suður á bóginn til Kandovan, Hamadan- og þaðan til aðalborgar Kúrda Kermanshah og gistum þar eina nótt- til Zanjan og loks til Isfahan, enda væri óhugsandi annað er þar yrði tyllt niður fæti.

Hér er áætlun í megindráttum en ég áskil mér rétt til breytinga en þær verða ekki stórvægilegar. Eins og sjá má förum við á margar nýjar og spennandi slóðir í þessu magnaða landi.

Verð þarf að hækka þar sem flugmiðaverð er dýrara af því við notum ekki sama flugfélagið til og frá Íran. Turkish Airlines til Tabriz en það flýgur ekki til Teheran en þaðan verður flogið aðfararnótt 22.sept.Auk þess er ferðin 16 dagar en ekki 14 eins og undanfarnar ferðir. Með því sjáum við vonandi eftirsóknarverða staði en missum ekki af Isfahan.

Það er raunar ekki frágangssök þótt verð hækki, tekist hefur að halda því óbreyttu í síðustu fimm ferðum. Ég slæ - án ábyrgðar þó - á 530 þúsund kr.

Til að halda þessu verði þurfa þátttakendur að vera að minnsta kosti tuttugu og fimm. Ég þarf að fá að vita um áhuga/vilja sem fyrst.
Flestir þeirra sem hafa skrifað sig eru með spurningarmerki og því þarf ég að geta útrýmt. Vegna þess að hækkun verður hjá flestum flugfélögum í janúar er áríðandi að geta fest sæti svo menn sleppi við hana.

Bið ykkur vinsamlegast og lengstra orða að hafa samband hið allra fyrsta.
Íranferð í september

1.dagur 7.sept Flug með Icelandair til Frankfurt.Lent þar kl. 13 og síðdegis áfram með Turkish Airlines til Istanbul. Í Istanbul er stutt bið þá flogið til Tabriz og lent þar kl. 03,30.
Fulltrúar ferðaskrifstofunnar taka á móti hópnum og farið á Pars hótel.

2. dagur 8.sept
Menn eru væntanlega þreyttir eftir flugið og hvíla sig fram yfir hádegi. Þá förum við í skoðunarferð um borgina sem var önnur stærsta borg Írans þar til Isfahan tók þann sess. Við skoðum bláu moskuna sem var reist á 15.öld og þótti eitt mesta stórvirki síns tíma, förum á Azerbajdansafnið þar sem stórmerkir dýrgripir eru og stjórnarráðshúsið sem var byggt í byrjun 20.aldar. Einnig grafhýsi Shahriyar, ástsæls íransks skálds.
Gistum á Pars

3 dagur. 9.sept
Morgunverður
Frjáls tími fyrir hádegi og geta menn þá m.a. farið á bazarinn sem er gríðarstór og vöruúrval eftir því.
Keyrum áleiðis til Kandovan. Landslagið myndaðist við eldgos fyrir þúsundum ára. Það er talið að fólk hafi byrjað að setjast að í þessum sérstæðu hellum Kandovans fyrir 800 árum og enn búa þar nokkur hundruð manns í hellunum. Þorpið er einstakt og minnir um sumt á Cappadocciu í Tyrklandi. Þar er endalaust hægt að ganga um og skoða og fyrir myndatökumenn er Kandovan hreinasti fjársjóður.
Hótelið sem við dveljum á er einstakt og hoggið inn í klettana.

4. dagur. 10. september
Morgunverður
Um morguninn keyrum við til Zanjan. Þar eru nokkrar einstaklega fagrar moskur, stórgóður bazar og endurbyggð ævaforn vagnlestastöð. Þar er Soltanieyeh sem er á heimsminjaskrá UNESCO og á moskunni þeirri er þriðja stærsta hvolfþak í heimi. Einnig skoðum við Rakhtshuikhane sem er neðanjarðarþvottahús, þar sem hinni frægu tækni Írana varðandi vatnsleiðslurnar var beitt. Silfurgripir og handgerðir hnífar frá Zanjan eru frægir.
Í Zanjan urðu blóðug átök á 19.öld þegar þáverandi forsætisráðherra Amir Kabir fyrirskipaði að ráðist skyldi gegn Baháum sem höfðu gerst full atkvæðamiklir í landinu. Gist í Zanjan

5. dagur 11.sept
Morgunverður
Leiðin liggur til Takht e Soleiman sem er reist umhverfis stöðuvatn hæð. Þarna eru leifar af stórum minjum um búsetu frá tímum Parthiana. Akkamenia og Sassainita og einnig frá frum islam. Takht e Soleiman er talinn einhver minnisverðasti og merkasti staður í landinu.Staðurinn hefur einnig tengsl við Gamla testamentið og sagt að Salómon kóngur hafi búið þar en fáar vísindalegar sannanir hafi fundist fyrir því. Staðhæft er að Zaraþústra hafi verið fæddur þarna. Árið 1939 byrjuðu nasistar að grafa á staðnum til að leita að heilögum bolla sem Jesús Kristur á að hafa notað við síðustu kvöldmáltíðina. Elstu rústir þarna eru af höll frá tímum Sassaníta og nokkur eldshof er að finna þarna.
Við gistum á litlu hóteli og heldur þokkalegu hóteli í Tekab í grenndinni.

6. dagur 12. september
Morgunverður
Nú stefnum við í vestur til Kermanshah en það er aðalborg Kúrda í landinu. Á leiðinni heimsækjum við musteri Anahita, vatnsgyðjunnar í Zorostratrúnni. Eftir komuna til Kermanshah skoðum við basalthvilftir sem voru skornar út á tímum Sassaníta og nefnist staðurinn Taq-e-Boston. Annar helsti staðurinn er Tekiyeh Moaven-ol-Molk sem var reist til að minnast píslarvættisdauða Husseins Alisonar og þangað leita menn mjög meðan sorgarmánuðurinn Moharram stendur yfir. Komum við á bazarnum og m.a. má fá þar sérstaklega ofna skó sem eru dæmigerðir fyrir Kermanshah og eru kallaðir giveh. Gistum á hótel Jamshid.

7.dagur. 13.sept.
Við keyrum til Hamadan og stoppum við Ali Sadr hellavatn þar sem eru fagrir dropasteinshellar. Við förum í siglingu þangað og skoðum hellana. Einnig Bisotun, sem eru steinhvilftir og talið að þær hafi verið skornar út fyrir mörgum öldum og eru á fornminjaskrá UNESCO.
Eftir komu til Hamadan tjekkum við inn á Buali og eftirmiðdagur frjáls. Hamadan var á sínum tíma aðalmiðstöð Ekkbatana og meðal helstu borga heims. Því miður hafa ekki margar menjar fundist en verið er að grafa víða því saga borgarinnar er nokkurri dulúð sveipuð sumar aldirnar. Borgin hét áður Ekkbatana og sagt að umhverfis hana hafi verið tvöfaldir múrar, hið mesta mannvirki. Seinna er ljóst að borgin féll í hendur Akkamena og Kýrus Persakóngur notaði borgina sem sumardvalarstað sinn enda gott að leita þangað þegar sumarhitar eru hvað mestir.
Eftirmiðdagur frjáls. Gist á hótel Buali í Hamadan

8. dagur 14.september
Morgunverður
Um morguninn skoðum við m.a. Avicenna (BuAli Sina) grafhýsið sem hefur orðið eitt helsta tákn Hamadan.
Bu Ali( bu þýðir sonur) og þessi mikli heimspekingur og læknir er betur þekktur í vestri sem Avicenna. Hann var fæddur í Bukhara í því sem nú er Uzbekistan 980 f.Kr. Hann virðist hafa hneigst barn að aldri til lækninga og rúmlega tvítugur fór hann frá heimaborg sinni Bukhara og lagðist í ferðalög í nokkur ár. Settist síðan að í Hamadan og varð læknir ríkjandi emirs við góðan orðstír. Þegar þessi emir andaðist var BuAli settur í fangelsi en tókst að flýja, komst til Isfahan og var í þjónustu þáverandi yfirstjórnanda um langa hríð. Hann ritaði margar bækur m.a um læknisfræði og sumar kennslubækur hans voru í notkun fram á 18 öld við skóla m.a. í Evrópulöndum. Hann fékkst einnig við skáldskap og heimspekiritun. Hann sneri aftur til Hamadan og bjó þar síðustu árin og andaðist 1037.
Þá vitjum við grafar Esterar og Modercai sem mörgum finnst hafa dálítið tolkieniskan umbúnað. Goðsagan segir að þarna sé hvílustaðir Esterar úr gamla testamentinu og Mordecai frænda hennar. Ester giftist Xerxes I eftir að hann hafði látið fyrri konu sína Vashti róa af því hún sýndi ýmsar feminiskar tilhneigingar. Að líkindum er þetta þó ekki gröf viðkomandi Esterar heldur gyðingardrottningarinnar Shushan Dokht sem taldi eiginmann sinn Yazgerd I (399-424 f.Kr) til að leyfa gyðingabyggð í Hamadan. En hvort sem er þá er þetta mikilvægur helgistaður gyðinga
Við förum víðar um Hamadan eftir því sem tími leyfir.
Gist á Buali hóteli í Hamadan

9.dagur 15.sept.
Morgunverður
Við stingum út stefnuna til Arak og skoðum ýmsa sögufræga staði á leiðinni,, m.a. Nushijan frá 8-6 öld fyrir Krist. Uppgröftur bendir til að þar hafi fundist elsta eldhof sem sögur fara af.
Við komuna til Arak er frjáls tími og gist á Amir Kabir hóteli

10.dagur 16.sept
Leiðin liggur nú til perlu Írans, Isfahan. Komið við í Khomeinibæ þar sem trúarhöfðinginn ólst upp. Einnig fleiri sögurfrægir staðir. Gist á hótel Aseman í Isfahan

11 dagur 17.sept
Morgunverður
Isfahan þykir fegurst allra borga í Íran og verður ekki ýkt um töfra hennar og Lífgjafarfljótið sem rennur um hana. Einstaklega fagrar bláar moskurnar eru eitt frægasta einkenni Isfahan. Við sækjum heim fjörutíu súlna höllina og förum á Torgið mikla.Við skoðum nokkrar þessara moska m.a. Imam moskuna og Lokiotullah (sem áður hét Konungsmoska)og bregðum okkur e.t.v. á skondinn íþróttaleik þar sem karlar reyna með sér. Gistum á Aseman.

12.dagur. 18.september
Morgunverður
Við höfum nóg að gera í Isfahan. Við heimsækjum armenska hverfið og dómkirkjuna þar sem var reist á 17.öld. Við skoðum tilkomumiklar brýrnar og garðana og síðast en ekki síst gerum við víðreist um bazarinn og heimsækjum m.a. listamenn em teikna minaturmyndir svo og lítum við inn í teppabúð en teppi eru Íranir frægir fyrir. Gist á Aseman.

13.dagur 19.sept.
Morgunverður.
Frjáls dagur í Isfahan en fararstjórar ekki langt undan.
Gistum á Aseman

14.dagur. 20.sept.
Morgunverður
Snemma á fætur og akandi til Teheran, förum framhjá hinni helgu borg Qom á leiðinni. Gerum stans í vinjabænum Kashan
Tjekkum við inn á Laleh. Kveðjukvöldverður

15.dagur 21,sept
Morgunverður
Rólegur dagur. Farið á tvö söfn nærri hótelinu, teppasafn og nýlistasafn.
Förum á gamla, þekkta kaffistofu sem intelligensían sæki. Kvöldverður í fyrra lagi.
Gengið snemma til náða

16.dagur 22.sept
Við fáum te/kaffi og kökusneið um nóttina áður en við höldum til flugvallar í Teheran. Við fljúgum með British Midland til London og komum þangað um hálf átta leytið. Íslandsvélin fer í loftið kl. 13


Innifalið er

Flug og skattar

Allur akstur í ferðinni

Gisting, miðað við tvo í herbergi.

Fullt fæði

Aðstoð við komu og brottför

Allar skoðunarferðir sem eru taldar upp í áætlun

Aðgangseyrir á alla skoðunarstaði sem er getið um í áætlun

Tips á flugvöllum, hótelum og veitingastöðum

Vatn og te/kaffi á löngum ökuleiðum.

Drykkir með máltíðum

Íslensk fararstjórn

Enskumælandi leiðsögumaður


Ekki innifalið
Vegabréfsáritun um 90 dollarar. Ég tek að mér að senda vegabréf og umsóknareyðublöð utan.

Tips til íranska leiðsögumannsins og bílstjóranna 160 dollarar á mann. Ég innheimti það einhvern fyrstu dagana.


Athugið að áfengi er ekki að fá í Íran og má ekki flytja það inn í landið.

Konur skulu bera slæðu.

VISA kort eru tekin við teppakaup og ef menn kaupa miniaturmyndir. Annars þarf að hafa dollara eða evrur.


Upplýsingar getið þið alltaf fengið hjá mér í símum 5514017 og 8976117

netfang: jemen@simnet.is

3 comments:

Anonymous said...

Þessi greinargerð hefst á fyrirsögninni Monday, December 4, 2006. Af hverju þessi dagsetning??

Magnús Bjarnason

Anonymous said...

Sendi svar nuna adan. Bestu kvedjur
Johanna

Anonymous said...

Thad tokst vist ekki, Magnus, svo eg endurtek thad bara
Astaedan er ad eg skrifadi thetta thegar eg setti inn lysingu a fyrstu ferd og malid er ad eg kann ekki ad taka thad ut og hef gleymt ad bidja taeeknistjorann minn ad gera thad.
Med kvedju
JK